Sænska ríkisútvarpið hefur eftir EBU að ísraelska ríkisútvarpið KAN uppfylli öll skilyrði til þess að fá að taka þátt í keppninni í ár. Kallað hefur verið eftir því úr ýmsum áttum að Ísraelum verði meinuð þátttaka í ár vegna árása ísraelska hersins á Gasa og gríðarlegs mannfalls almennra borgara.
„Eurovision söngvakeppnin er keppni á milli ríkisrekinna sjónvarpsstöðva sem eru meðlimir í EBU. Þetta er keppni milli sjónvarpsstöðva - ekki ríkisstjórna - og ísraelska stöðin hefur tekið þátt í 50 ár,“ segir EBU í tilkynningu.
Samtökin segja að þau vilji varðveita stöðu keppninnar sem ópólitísks vettvangs sem sameini ólíka hópa um allan heim með tónlist að vopni. Þá segja samtökin ákvörðun sína í samræmi við ákvörðun alþjóðlegra íþróttasambanda sem leyft hafa þátttöku Ísraelsmanna í keppnum á alþjóðasviði.