Hættustig almannavarna hefur verið í Grindavík frá 23. nóvember. Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur hægt og sígandi verið að rýmka þann tíma sem íbúum og fyrirtækjum hefur verið leyfilegt að dvelja í bænum. Frá 14. desember hefur leyfilegur dvalartími í bænum verið frá klukkan sjö á morgnanna til níu á kvöldin.
Úlfar Lúðvíksson lögreglustjóri á Suðurnesjum segir þó greinilegt að þolinmæði íbúa gagnvart lokun að heimilum sínum sé á þrotum.
„Við rýmdum bæinn 10. nóvember og merkilegt nokk þá hafa íbúar farið að reglum síðan. Það voru þó nokkrir íbúar í gær sem að vildu ekki fara en ég held að það hafi verið leyst og þau fóru fyrir rest. Það er ágætt að segja frá því að lögreglan er ekki að fara í harðar aðgerðir gagnvart íbúum Grindavíkurbæjar,“ segir Úlfar.
Úlfar segir greinilegt að það sé komið óþol fyrir þessu ástandi.
„Við erum auðvitað búinn að vera með bæinn tómann að næturlagi frá 10. nóvember. Það eru litlar breytingar að sjá í jörðinni eins og ég segi stundum. Ég á von á því að Veðurstofan uppfæri hættumatskort sitt á miðvikudag. Ég er að bíða eftir þeim degi því við vegum og metum stöðuna á hverjum degi og ef að okkur þykir ástæða til þá með skynsamlegum rökum að lyft rýmingu þá gerum við það,“ segir hann.

Aðspurður um hvort honum þyki líklegt að Grindvíkingar geti haldið jól í bænum svarar Úlfar:
„Ég myndi telja líkur á því já, miðað við stöðuna eins og hún er í dag. Við verðum að bíða og sjá hvað Veðurstofan segir í uppfærðu hættumati.“