Þetta var samþykkt af meirihluta Repúblikana í deildinni þrátt fyrir að engar sannanir hafi verið settar fram sem sýni að Biden hafi hagnast af viðskiptum fjölskyldumeðlima á meðan hann gegndi sjálfur embætti varaforseta. Atkvæðagreiðslan fór fram nokkrum klukkustundum eftir að sonur forsetans, Hunter Biden, mætti ekki til skýrslutöku fyrir þingnefnd sem rannsakar viðskiptahætti hans.
Þess í stað hélt hann blaðamannafund í Washington og sagðist reiðubúinn til að svara öllum spurningum sem að honum væri beint opinberlega. Yfirheyrslan í þingnefndinni átti hinsvegar að fara fram á bak við luktar dyr og það vildi Hunter ekki sætta sig við.
Repúblikar hafa þvertekið fyrir að hafa yfirheyrsluna í heyranda hljóði og segja Demókratar það sýna glöggt hve veikur málatilbúnaður þeirra sé.