Aðgerðaáætlunin, sem kynnt var með viðhöfn í Hörpu nú fyrir hádegi, byggir á vinnu ráðherranefndar um málefni íslenskrar tungu sem sett var á laggirnar í fyrra. Áætlunin er í nítján liðum, tekur til næstu þriggja ára og að henni koma fimm ráðuneyti. Umfangsmesta átak sinnar tegundar frá upphafi, að sögn Lilju Alfreðsdóttur menningar- og viðskiptaráðherra.
„Við getum sagt það hiklaust. En til þess að það gangi upp þarf allt samfélagið að taka þátt í þessu. Við leggjum gríðarlega áherslu á að fá hluttekningu og að menntakerfið, listir og menning, atvinnulífið, tæknin og að allir geti tekið þátt í þessu til þess að þetta gangi upp,“ segir Lilja. „Þetta er tímamótaaðgerðaáætlun.“
Sérstök áhersla er lögð á innflytjendur og börn af erlendum uppruna í áætluninni. Ellefu af nítján liðum tengjast þeim hópum á einhvern hátt. Þannig á til að mynda að efla starfstengt íslenskunám fyrir innflytjendur samhliða vinnu og stofna háskólabrú fyrir innflytjendur. Og svo eru það börnin; greina á möguleika á aukinni talsetningu efnis og efla skólabókasöfn.
„Við leggjum áherslu á orðaforða barna og að öll börn á Íslandi hafi gríðarlega gott aðgengi að tungumálinu í daglegu lífi. Sem fyrrverandi menntamálaráðherra og núverandi menningarmálaráðherra veit ég nákvæmlega hvað þarf að gera til þess að ná árangri. Og árangurinn er í gegnum orðaforða, efla hann og dýpka lesskilning,“ segir Lilja.
Talsverðir fjármunir hafa verið eyrnamerktir átakinu.
„Kostnaðurinn núna, við erum upphaflega að setja í þetta 1,4 milljarð og svo setjum við aukna fjármuni í þetta á næstu árum.“