„Við tekur ruddaloft úr suðvestri sem ryðst yfir með miklum látum.“
Einar segir að í svona veðri geti reynst erfitt að fóta sig og „dekkja sig“ vegna þess að hálka getur myndast, þó ekki sé ófært. Hann nefnir sem dæmi fjallvegi fyrir vestan og norður í landi í þeim efnum.
„Þó að hitinn sé tvö stig þá lemjast þessar hryðjur ofan í vegina og oft einhver bleyta með og valda hálku,“ útskýrir Einar.
Hann segir að besta ráðið í þessum aðstæðum sé hreinlega að draga úr ferðinni. „Þá ræður maður betur við bílinn.“
Fólk þarf að vera velvakandi með báðar hendur á stýri segir Einar um þá sem ætla sér að ferðast í óveðrinu. Hann gerir ekki ráð fyrir að samgöngur fari úr skorðum á landi, en flestu flugi hefur verið aflýst vegna veðursins.
Einar segir að líklega muni lægja talsvert í fyrramálið, en þrátt fyrir það verði meira og minna allhvasst allan morgundaginn líka. Þó stefnir í að það kólni næstu daga.
Aðspurður segist Einar ekki vera farinn að velta fyrir sér jólaveðrinu, ekki einu sinni aðventuveðrinu.