Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Dr. Geeta Rao Gupta sendiherra jafnréttismála frá Bandaríkjunum, Irene Fellin fulltrúi NATO fyrir konur, frið og öryggi, Lopa Banerjee framkvæmdastjóri hjá UN Women, Dalia Grybauskaite fyrrverandi forseti Litháen, Iris Mwanza aðstoðarframkvæmdastjóri hjá Bill and Melinda Gates Stofnunarinnar ásamt mörgum fleirum taka einnig þátt í þinginu sem lýkur seinni partinn á morgun.

Heimsþing kvenleiðtoga, Reykjavik Global Forum - Women Leaders, er nú haldið í sjötta sinn í Hörpu í samstarfi við Women Political Leaders (WPL), ríkisstjórn Íslands, Alþingi og með stuðningi fjölmargra íslenskra og alþjóðlegra samstarfsaðila. Vigdís Finnbogadóttir fyrrverandi forseti Íslands er sérstakur verndari Heimsþings kvenleiðtoga.

Hann Birna Kristjánsdóttir stjórnarformaður heimsþingsins og stofnandi þess segir aðgerðir og lausnir vera meginviðfangsefnið að þessu sinni.
„Og við erum núna hér 500 konur frá 80 löndum alls staðar að úr heiminum að ræða hvernig við getum fært okkur semsagt frá því að ræða vandamálið yfir í raunverulegar aðgerðir,“ segir Hanna Birna.

Leiðtogahópurinn hafi sameinast um fjórar aðgerðir sem mestu máli skipti og sem byggi á reynslunni á Íslandi.
„Það er áhersla á að launajafnrétti sé tryggt, áhersla á að jafn margar konur séu í forystu og karlar, áhersla á jafnt fæðingarorlof fyrir foreldra og leiðir til að útrýma kynbundnu ofbeldi,“ segir stjórnarformaðurinn.
Það vekur athygli að hin heimsfræga kvikmyndaleikkona Ashley Judd sækir þingið að þessu sinni. Hanna Birna segir þingið viðburð sem Judd hafi þótt mikilvægt að sækja, enda einn af fáum ef ekki eini viðburðurinn í heiminum þar sem kvenleiðtogar komi saman.

„Hún er auðvitað sú sem að steig mjög ákveðið fram og var og var í forystu fyrir Me Too hreyfingunni í Bandaríkjunum á sínum tíma. Þannig að það er ástæðan fyrir því að hún er hér. Hún er að deila sinni reynslu af því að vera kona í framlínu sem tekur slíkan slag,“ segir Hanna Birna.
Á hverju þingi er birtur svo kallaður Reykjavík index, sem er viðhorfsmæling til kvenna í forystuhlutverkum og þar mælist afturkippur.
„Ef eitthvað er þá erum við að sjá að viðhorfin eru að verða neikvæðari gagnvart konum í leiðtogahlutverki. Þannig að við eigum því miður langt í land, en aftur þá erum við hér að leggja áherslu á lausnir,“ segir Hanna Birna Kristjánsdóttir.