Áhafnir fimm skipa strandgæslu Kína, átta annarra skipa og tveggja skipa frá sjóher Kína reyndu að koma í veg fyrir að filippseysku sjómennirnir kæmust leiðar sinnar á fjórum skipum. Tvö þeirra voru á vegum strandgæslu Filippseyja.
Ráðamenn í Kína segja Filippseyingum um að kenna og þeir hafi siglt á skip kínversku strandgæslunnar.
Eins og áður segir var verið að flytja birgðir til hermanna sem eru um borð í gömlu og illa förnu herskipi sem siglt var í strand við Second Thomas grynningarnar árið 1999. Var það gert til að reyna að festa tilkall Filippseyja til grynninganna í sessi.
Grynningarnar eru innan tvö hundruð sjómílna efnahagslögsögu Filippseyja og nærri einhverjum fjölförnustu siglingaleiðum heims.
Kínverjar gerðu fyrir nokkrum árum ólöglegt tilkall til nánast alls Suður-Kínahafs og er þar á meðal hafsvæði Filippseyja, Taívan, Víetnam, Malasíu og Brúnei. Alþjóðagerðadóminn í Haag, sem komst árið 2016 að þeirri niðurstöður að tilkall Kína væri ólöglegt.
Þrátt fyrir það hafa Kínverjar haldið áfram hernaðaruppbyggingu á svæðinu og hafa þeir aldrei viðurkennt úrskurðinn. Meðal annars hafa þeir byggt heilu eyjurnar, flotastöðvar og flugvelli og komið eldflaugum fyrir á svæðinu.
Hér að neðan má sjá myndefni frá Suður-Kínahafi. Fyrri hluti myndefnisins sýnir sjónarhorn filippseyskra sjómanna og svo seinna meir má sjá umfjöllun frá Kína.
Stutt er síðan til deilna kom við Scarborough-rif, þar sem Kínverjar hafa reynt að koma í veg fyrir að filippseyskir sjómenn geti stundað veiðar.
Scarborough-rif er í um 108 sjómílna fjarlægð frá strandlengju Filippseyja en um 486 sjómílur frá meginlandi Kína.
Sjá einnig: Fjarlægðu flotgirðingu í Suður-Kínahafi
Í frétt Reuters segir að yfirvöld í Kína hafi sakað filippseyska sjómenn um að sigla utan í skip kínversku strandgæslunnar og utan í kínverski fiskiskip á svæðinu. Ráðamenn segja áhafnir kínversku skipanna hafa fram fram af fagmennsku og stillingu. Filippseysku skipunum hefði verið siglt inn á kínverskt hafsvæði.
Sendiherra Kína í Manila fór í morgun og lagði fram kvörtun yfir því að filippseyskir sjómenn hafi verið í leyfisleysi á hafsvæðinu sem Kínverjar gera tilkall til. Sendiherrann kallaði eftir því að ríkisstjórn Filippseyja hætti að „valda vandræðum“, hætti „ögrunum“ og hætti að reyna að skaða orðspor Kína með röngum ásökunum af þessu tagi.
Kínverjar krefjast þess einnig að hið strandaða skip við Second Thomas-grynningarnar verði dregið á brott.
Gilberto Teodoro, varnarmálaráðherra Filippseyja, sagi á blaðamannafundi í morgun, eftir fund þjóðaröryggisráðs ríkisins, að Kínverjar hefðu brotið alþjóðalög með framferði þeirra á hafsvæði Filippseyja. Hann sagði að kínverski sendiherrann hefði verið kallaður á teppið í morgun.
Teodoro sagði Kínverja ekki hafa heimild eða rétt til að haga sér svona innan efnahagslögsögu Filippseyja.

Ferdinand Marcos Jr., sem varð forseti Filippseyja í fyrra, hefur leitað eftir betri tengslum við Bandaríkin en forveri sinn og reynt að standa í hárinu á Kínverjum. Ríkisstjórn hans hefur 122 sinnum lagt fram kvörtun vegna framferðis Kínverja í Suður-Kínahafi.
Myndu koma Filppseyjum til varnar
Yfirvöld í Bandaríkjunum ítrekuðu í morgun að Bandaríkin myndu verja Filippseyjar í tilfelli árásar, á grundvelli sáttmála frá 1951. Bandaríkjamenn segja að þeir muni koma Filippseyingum til varnar verði ráðist á herskip þeirra eða flugvélar og það eigi við skip strandgæslunnar.
„Bandaríkjamenn standa við bakið bandamönnum sínum á Filippseyjum gegn hættulegum og ólöglegum aðgerðum strandgæslu Kína til að koma í veg fyrir birgðaflutninga til Second Thomas-grynninga,“ stóð í yfirlýsingu frá utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna, samkvæmt frétt AP fréttaveitunnar.
Í yfirlýsingunni er Kínverjum kennt um atvikið og tekið fram að Kínverjar hafi brotið alþjóðalög og er vísað í áðurnefndan úrskurð Alþjóðagerðadómsins í Haag um að tilkall Kínverja til Suður-Kínahafs sé ólöglegt.
Bandaríkjamenn sigla reglulega herskipum um alþjóðahafsvæði í Suður-Kínahafi, sem hefur reitt ráðamenn í Kína til reiði. Bandaríkjamenn fljúga einnig herþotum um svæðið með því yfirlýsta markmiði að tryggja rétt fólks til að fara um svæðið.