Skoðun

Börn en ekki pólitík

Ragnar Schram skrifar

Nú er barist af mikilli heift fyrir botni Miðjarðarhafsins. Íslendingar sjá þessi átök frá ólíkum sjónarhornum. Tilfinningar blossa upp og skoðanir eru heitar.

SOS Barnaþorpin hafa verið til staðar fyrir börn í Palestínu síðan 1968 og í Ísrael síðan 1977. Við spyrjum ekki hvoru megin landamæranna börnin búa, hverrar trúar fjölskyldur þeirra eru eða hvaða pólitísku skoðanir foreldrar þeirra eða aðrir ættingjar hafa.

Við stöndum einfaldlega með börnunum.

Þegar við, starfsfólk SOS Barnaþorpanna á Íslandi, höfum verið í samskiptum við starfsfélaga okkar hjá SOS í Palestínu og Ísrael hefur komið sterklega í ljós sú mikla virðing og það traust sem ríkja á milli þessara tveggja landsfélaga, ólíkt því sem margur gæti ætlað. Palestínumenn og Ísraelsmenn tala saman og vinna saman, enda er verið að vinna fyrir börnin en ekki stjórnmálahreyfingar.

SOS Barnaþorpin sinna nú neyðaraðstoð og áfallahjálp fyrir börn í Palestínu og Ísrael. Það þarf ekki að teikna hér upp myndrænar lýsingar á þeim óhugnaði sem börn á svæðinu hafa upplifað. Þessi börn þurfa áfallahjálp. Hana veita SOS Barnaþorpin. Einnig hjálpum við börnum sem orðið hafa viðskila við fjölskyldur sínar og jafnvel misst foreldra sína. Þá dreifum við nauðsynjum til þeirra sem á þurfa að halda.

SOS Barnaþorpin hafa hlotið CHS vottun sem neyðarhjálparsamtök og eru ríkar kröfur gerðar til allra okkar aðgerða. Þá störfum við einnig á vettvangi með öðrum viðurkenndum hjálparsamtökum eins og Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna.

Hægt er að leggja þessari neyðaraðstoð lið á sos.is. Takk fyrir að standa með börnunum.

Höfundur er framkvæmdastjóri SOS Barnaþorpanna á Íslandi.




Skoðun

Sjá meira


×