Í Víkinni var silfurlið Vals í heimsókn. Það var snemma ljóst hvort liðið ætlaði að enda tímabilið á sigri en Víkingar, sem tóku við Íslandsmeistaraskildinum að leik loknum, sýndu sínar bestu hliðar.
Erlingur Agnarsson skoraði þrennu fyrir Íslandsmeistarana og Aron Elís Þrándarson gerði tvennu. Aron Jóhannsson skoraði mark Vals í leiknum. Að leik loknum fögnuðu Víkingar svo vel og innilega.
Í Hafnafirði var KR í heimsókn. FH hafði þegar tryggt sér Evrópusæti og ljóst var að Vesturbæingar myndu ekki leika í Evrópu á næstu leiktíð. Það var því aðeins stoltið undir í Kaplakrika.
KR-ingurinn fyrrverandi Kjartan Henry Finnbogason virtist vita það manna best en hann skoraði tvö mörk FH í 3-1 sigri liðsins. Dani Hatakka skoraði þriðja mark FH en Ægir Jarl Jónasson skoraði mark KR í leiknum.
Fylkir þurfti á sigri að halda gegn Fram en bæði lið voru í fallhættu fyrir lokaumferð deildarinnar. Segja má að Fylkir hafi þó aldrei verið í hættu eftir að leikurinn var flautaður á, lokatölur 5-1 heimamönnum í Árbænum í vil.
Pétur Bjarnason skoraði tvö mörk fyrir Fylki á meðan þeir Arnór Breki Ástþórsson, Nikulás Val Gunnarsson og Benedikt Daríus Garðarsson skoruðu eitt hver. Aron Snær Ingason skoraði mark Fram.
Þar sem Keflavík náði í stig í Vestmannaeyjum þá hélt Fram sér uppi á meðan ÍBV féll. Muhamed Alghoul skoraði mark Keflavíkur en Eiður Aron Sigurbjörnsson jafnaði metin fyrir ÍBV og þar við sat, lokatölur 1-1.
Að lokum vann KA 1-0 sigur á HK á Akureyri. Harley Bryn Willard með markið.
Lokaleikur tímabilsins fer fram klukkan 14.00 í dag þegar Breiðablik og Stjarnan mætast á Kópavogsvelli. Leikurinn er sýndur beint á Stöð 2 Sport og Stúkan gerir leiki lokaumferðarinnar og tímabilið í heild sinni svo upp klukkan 16.00.