Letby var á sama tíma og hún var sakfelld fyrir morðin sakfelld fyrir að hafa reynt að bana sex ungbörnum til viðbótar. Letby hafði einnig verið ákærð fyrir tilraun til að bana fimm öðrum ungbörnum en kviðdómur komst ekki að niðurstöðu í þeim ákæruliðum.
Saksóknari í Manchester tilkynnti það fyrir dómara í dag að embættið ætli að gera aðra tilraun í máli eins ungbarnsins sem ekki fékkst niðurstaða um í fyrri réttarhöldunum. Málið verður samkvæmt frétt Reuters tekið fyrir á næsta ári.
Eitraði fyrir börnunum
Letby var ákærð fyrir að hafa sprautað lofti í kornabörnin og eitrað fyrir þeim með insúlíni. Drápin áttu sér stað á tímabilinu júní 2015 til júní 2016 á barnadeildinni á Countess of Chester sjúkrahúsinu í Chester. Málið var rekið fyrir dómstól í Manchester en Letby hefur haldið fram sakleysi sínu.
Letby, sem er 33 ára, var handtekin árið 2018 og var ákæra í málinu í 22 liðum. Öll fórnarlömb Letby voru yngri en eins árs.