Í umfjöllun sænska ríkisútvarpsins um málið kemur fram að íbúar hafi látið lögreglu vita af sprengingunni rétt fyrir miðnætti. Miklar skemmdir urðu á hurð hússins og gluggum.
Segist sænska ríkisútvarpið hafa heimildir fyrir því að íbúi í húsinu tengist skipulagðri glæpastarfsemi, nánar tiltekið Foxtrot samtökunum og leiðtoga þeirra, Rawa Majid sem sænskir fjölmiðlar kalla „kúrdíska refinn.“
Samtökin eru talin bera ábyrgð á röð skotárása í Uppsölum og í Stokkhólmi. Lögregla verst hinsvegar allra frétta að sögn sænska ríkisútvarpsins en telur ekki að um slys hafi verið að ræða.
Hefur sænska ríkisútvarpið eftir Mats Eriksson, talsmanni lögreglunnar, að þó nokkrir einstaklingar hafi verið færðir til yfirheyrslu vegna sprengingarinnar. Hann gefur hins vegar ekkert upp um meint tengsl íbúa í húsinu við glæpahópa. Lögregla muni nýta daginn í að ræða við vitni.