Leikur liðanna var afar fjörlegur og hittnin góð í fyrstu tveimur fjórðungunum. Staðan í hálfleik 60-59 fyrir Bandaríkin en aldrei hafa eins mörg stig verið skoruð í undanúrslitaleik á heimsmeistaramóti.
Þjóðverjar voru sterkari aðilinn í þriðja leikhluta og leiddu með tíu stiga mun að honum loknum. Bandaríkin svöruðu fyrir sig í þeim fjórða og úr varð æsispennandi lokakafli. Þeir þýsku höfðu þar betur með tveggja stiga mun, 113-111, og munu þeir því mæta Serbum í úrslitaleik mótsins á sunnudag.
Um er að ræða sögulegan árangur hjá þeim þýsku sem hafa aldrei áður komist í úrslit HM en þeir hlutu brons árið 2002.
Andreas Obst, leikmaður Bayern Munchen, var stigahæstur á vellinum með 24 stig en honum skammt undan voru liðsfélagar hans í þýska liðinu, NBA-leikmennirnir Franz Wagner (Orlando Magic) með 22 stig og Daniel Theis (Indiana Pacers) með 21 stig.
Anthony Edwards úr Minnesota Timberwolves var stigahæstur Bandaríkjamanna með 23 stig.