Þetta kemur fram í svari ráðuneytisins við fyrirspurn fréttastofu. Sara Lind var sett sem forstjóri stofnunarinnar í apríl síðastliðnum eftir að Björgvin Víkingsson ákvað að láta af störfum til að taka við stöðu innkaupastjóra Bónuss.
Setningartími Söru Lindar var til loka ágústmánaðar en í svörum ráðuneytisins við fyrirspurn fréttastofu í apríl kom fram að staðan yrði auglýst „innan skamms“. Staða forstjóra hefur þó enn ekki verið auglýst.
Í svörum ráðuneytisins nú kemur fram að yfir standi skoðun á framtíðarfyrirkomulagi umgjarðar innkaupamála hjá ríkinu þar sem meðal annars sé „lagt mat á hvort hagkvæmt sé að sameina stofnunina öðrum einingum í samræmi við áherslur um einföldun stofnanakerfisins.“
Þá segir að sá tími sem forstjóri Ríkiskaupa sé settur í embætti hafi verið framlengdur til áramóta, á meðan sú skoðun stendur yfir.
Sara Lind starfaði sem sérfræðingur í kjara- og mannauðssýslu ríkisins hjá fjármála- og efnahagsráðuneytinu og sat í samninganefnd ríkisins í kjarasamningsviðræðum. Sumarið 2021 var hún færð til Ríkiskaupa þar sem hún tók við stöðu sviðsstjóra stjórnunar og umbóta á sama tíma og þrír aðrir nýir sviðsstjórar tóku til starfa. Henni var þá falið að stýra stefnumótun og áætlanagerð stofnunarinnar ásamt forstjóra, auk þess að hún var gerð að staðgengli forstjóra.