Valgerður Árnadóttir, formaður Samtaka grænkera á Íslandi, segist hafa orðið fyrir svolitlu áfalli þegar matvælaráðherra kynnti í dag ákvörðun sína um að leyfa hvalveiðar á ný en samkvæmt henni verða veiðar leyfðar aftur á morgun samkvæmt ákveðnum skilyrðum sem tilgreind eru í nýrri reglugerð.
„Ég vildi hafa trú á því að Svandís myndi nota þau tækifæri sem hún hefur til að stöðva þetta og ég trúði því alveg þangað til ég sá hana í beinni útsendingu kynna að hún ætlaði að leyfa honum að veiða aftur,“ segir Valgerður og á þá við Kristján.
Samtök grænkera ásamt öðrum samtökum stóðu að mótmælum sem hófust klukkan 17 en Valgerður segir marga verulega svekkta og reiða yfir þessari ákvörðun.
„Mér finnst ótrúlegt að hafa gefið þetta leyfi út frá skýrslu starfshóps sem viðurkennir sjálfur að vera ekki sérfræðingur í þessu og að þau hefðu gjarnan viljað fá lengri tíma til að ræða við sérfræðinga,“ segir Valgerður.
Engin viðurlög í reglugerð
Hvað varðar nýja reglugerð ráðherra segir Valgerður afar mörgum spurningum ósvarað í henni.
„Það sem stingur mig fyrst er að það eru engin viðurlög við að brjóta á henni,“ segir Valgerður og nefnir sem dæmi ef Kristján myndi skjóta langreyði með kálfi en það er bannað samkvæmt henni.
Þá segir hún að talað sé um ýmis námskeið sem starfsmenn þurfi að fara á og ekki sé ljóst hvort starfsmenn séu búnir að því eða hvort það sé skilyrði að fara á þau áður en veiðar hefjast að nýju.
Hvernig líður þér?
„Ekki vel. Ég er bjartsýn manneskja að eðlisfari þrátt fyrir að margir gætu haldið það gagnstæða því ég er mótmælandi. En ég myndi gjarnan vilja að við gætum treyst á stjórnvöld að fara eftir vilja þjóðarinnar. Að við gætum treyst á það þegar það er eitthvað sem er jafn borðleggjandi og að hætta að veiða hvali. Það er allt sem stríðir á móti því og nánast ekkert sem styður það. Við þessar aðstæður hefði mér þótt það skynsamlegt hjá stjórnvöldum að sjá að tíminn er kominn til að hætta og Svandís hefði átt að grípa það tækifæri í dag.“
Valgerður telur réttast að á þingi fari nú fram umræða um málið en Píratar, sem hún tilheyrir, hafa óskað eftir samvinnu allra flokka á þingi um að leggja fram frumvarp í þingbyrjun, eftir tvær vikur, um bann við hvalveiðum.
„Vonandi verður í kjölfarið veiðibann og ekki gefinn út frekari kvóti. En hversu marga hvali til viðbótar á að drepa og fyrir hvað? Mér finnst ekki réttlætanlegt að drepa einn hval til viðbótar.“
Ætlið þið að veita Kristjáni Loftssyni einhvers konar aðhald á meðan hann veiðir?
„Við munum gera flestallt sem við getum. Við erum friðsamlegt og höfum aldrei skemmt neitt eða notað ofbeldi á neinn hátt og munum ekki gera það en við munum gera allt annað sem við getum til að stöðva Kristján Loftsson.“