Innlent

Ný reglu­gerð um í­búa­kosningar „á­kveðin til­rauna­starf­semi“

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Aðalsteinn Þorsteinsson er skrifstofustjóri í innviðaráðuneytinu.
Aðalsteinn Þorsteinsson er skrifstofustjóri í innviðaráðuneytinu. Byggðastofnun

Kosningabifreiðar og sextán ára kosningaaldur er á meðal þess sem opnað er á í nýrri reglugerð innviðaráðherra um íbúakosningar í sveitarfélögum. Skrifstofustjóri ráðuneytisins segir um ákveðna tilraunastarfsemi að ræða.

Drög að reglugerðinni hafa verið birt í samráðsgátt stjórnvalda. Aðalsteinn Þorsteinsson skrifstofustjóri hjá innviðaráðuneytinu segir að markmið reglugerðarinnar sé að auka lýðræðisþátttöku og vitund innan sveitarfélaga.

„Sem og auðvelda notkun íbúkosninga hjá sveitarfélögum og minnka umfang þeirra og kostnað, án þess að vega að öryggi og vandaðri framkvæmd slíkra kosninga,“ segir Aðalsteinn í samtali við fréttastofu.

Kveðið er á um hreyfanlega kjörstaði, til að mynda með kosningabifreiðum.

„Þetta er nú bara einn liður af mörgum til að auka þátttöku í slíkum kosningum og má þá líta á það sem tilraunastarfsemi að kjörstaður geti þess vegna verið hreyfanlegur. Það verður áhugavert að sjá hvort það hafi tilætluð áhrif. Þetta er allavega spennandi nýbreytni.“

Athygli vekur að allir danskir, norskir, sænskir og finnskir ríkisborgarar sem náð hafa 18 ára aldri og eiga lögheimili í sveitarfélaginu hafa kosningarétt. Aðalsteinn segir það hins vegar ekki hafa verið rætt sérstaklega innan ráðuneytis og sé eingöngu ætlað að vera í samræmi við almenn kosningalög.

Í reglugerðinni er sveitarfélögum einnig gefinn kostur á að veita 16 ára íbúum rétt til að kjósa.

„Auðvitað hefur yngra fólk mikinn áhuga á þessum málefnum. Sérstaklega málefnum sem varða skiplagsmál og annað slíkt og það þykir bara rétt að koma til móts við það,“ segir Aðalsteinn að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×