Ásakanirnar voru settar fram í dag í uppfærðri ákæru sem forsetinn fyrrverandi sætir í tengslum við að hafa haldið leyniskjölum frá rannsakendum. Þetta segir í frétt AP um málið.
Þar segir að talsmaður Trumps hafi neitað ásökununum. „Þær eru ekkert meira en áframhaldandi örvæntingarfull og misheppnuð tilraun stjórnar Bidens til þess að áreita Trump forseta og þá sem honum tengjast,“ er haft eftir honum.
Auk þess að bæta í ákærurnar gegn Trump hafa saksóknarar í málinu ákært þriðja sakborninginn, Carlos De Oliveira. Ekki liggur fyrir hvað hann er ákærður fyrir eða hvernig hann tengist Trump.
Trump var upphaflega ákærður í málinu í síðasta mánuði ásamt aðstoðarmanni sínum Walt Nauta af Jack Smith, sérstökum saksóknara.
Rannsóknin á hendur forsetanum fyrrverandi og aðstoðarmanninum hefur beinst að því hvort að Trump hafi brotið lög um meðhöndlun ríkisleyndarmála og hvort hann hafi reynt að hindra alríkisstjórnina í að endurheimta þau.
Bæði Trump og Nauta hafa staðfastlega neitað sök í öllum ákæruliðum.