Í fréttum Stöðvar 2 var flugturninn á Akureyrarflugvelli heimsóttur. Inga Dís Júlíusdóttir var á vaktinni og nýbúin að gefa flugvél Icelandair heimild til flugtaks. Hún í hópi nokkurra kvenna sem starfa sem flugumferðarstjórar á Akureyri.
Sú var tíð að talað var um karlana uppi í turni. Það er sko aldeilis ekki viðeigandi á flugvellinum á Akureyri. Konur eru fjórar af sex flugumferðarstjórum.
„Við erum búnar að snúa þessu við hérna,“ segir Inga Dís.
Og þær eru allar að norðan.
„Allavega af svæðinu hér í kringum Akureyri.“

Hún er sjálf Akureyringur og segir það hafa verið tilviljun að hún sótti um nám í flugumferðarstjórn. Fór í gegnum langt og strangt inntökuferli og var svo í tólf manna hópi sem að lokum var tekinn inn. Eftir það segir hún að ekki hafi verið aftur snúið.
Inga Dís vann áður í þrettán ár í flugstjórnarmiðstöðinni á Reykjavíkurflugvelli en flutti nýlega aftur norður á heimaslóðir. Hún segir að miklu hafi ráðið að stuðningsnetið var fyrir norðan, foreldrar og systkini.
Það er komið útkall í sjúkraflug, vél Mýflugs er rennt út úr flugskýli. Sjúkraflugvélin er í forgangi og það er ákveðið að hún aki ekki út á flugbrautarenda heldur hefji flugtaksbrun á miðri braut.

Við spyrjum hvort það sé annars rólegt starf að vera í turninum á Akureyri.
„Hér getur verið rólegt og hér getur verið alveg brjálað að gera. Við stöndum ein í vinnustöðu allan daginn. Þannig að ef það er mikið að gera er álagið vissulega mikið.“
Og starfið geti verið krefjandi.
„Það er aldrei þægileg tilfinning þegar einhver kallar út neyð og þú heyrir stressið í röddinni á viðkomandi. En þú vinnur bara þína vinnu, eins og þú átt að gera.“
En starfið sé einnig gefandi.
„Númer eitt, tvö og þrjú að koma vélum með öruggum hætti frá stað A til B í samstarfi við aðra flugumferðarstjóra. Það er í rauninni það sem það gengur út á,“ segir Inga Dís Júlíusdóttir, flugumferðarstjóri á Akureyrarflugvelli.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: