Í fréttum Stöðvar 2 var fjallað um þennan nýja möguleika en hægt er að aka inn á leiðina frá Krýsuvíkurvegi á móts við Vatnsskarðsnámu. Í suðri tengist hún inn á Suðurstrandarveg. Við vegamótin er skilti sem segir að þetta sé jeppavegur en ekki ætlaður fólksbílum. Í Krókamýri hittum við Sigurð Sigurðarson, sem gagnrýnt hefur lokun Vigdísarvallaleiðar.

„Ég skil bara ekki hversvegna þessi leið hefur verið lokuð hérna, Vigdísarvallaleið. Hérna er styst yfir að gosstöðvunum,“ segir Sigurður en hann er áhugamaður um gönguleiðir og ritstýrði á árum áður tímaritinu Áfangar, um útivist, ferðamál og náttúru landsins.
„Þetta heitir Krókamýri hérna og hér er styst að gosstöðvunum, aðeins fimm kílómetrar, og tiltölulega létt leið,“ segir Sigurður en tekur fram að þar séu fá bílastæði.

Sjálfur var hann að leggja upp í göngu að gosstöðvunum ásamt Kjartani Magnússyni borgarfulltrúa. Sigurður telur verra að ganga upp frá Vigdísarvöllum, það sé mun erfiðari leið.
Almannavarnir biðla hins vegar til fólks að ganga ekki þessa leið heldur halda sig við Meradalaleiðina sem þær segja miklu öruggari og betri. Og fjáreigendur í Grindavík eru óhressir því í Krókamýri er þeirra beitarhólf.
„Það verður ekki lengi fallegt beitiland þegar eru komnir hér þúsund bílar. Nei, þá verður þetta allt bara troðið niður,“ segir Þórlaug Guðmundsdóttir, fjáreigandi í Grindavík.

Þá segir hún að göngufólk þurfi að fara yfir rafmagnsgirðingu og óttast að girðingin verði eyðilögð.
„Það liggur við að það sé alveg eins hægt að segja okkur að smala núna, ef þeir leggja niður girðinguna, svo féð fari ekki út fyrir,“ segir Þórlaug.
En er leiðin úr Krókamýri fyrir venjulegt fólk eða aðeins fyrir hrausta göngumenn?
„Þetta er fyrir alla. Það er mjög auðvelt að fara hérna upp. Þið sjáið að þetta er ekki bratt,“ svarar Sigurður.

„Þetta er ekkert betri ganga heldur en hin. Þú þarft að fara töluvert upp og svo bara beint niður hinumegin áður en þú kemur inn á Selsvellina. Þetta er erfið ganga,“ segir Þórlaug.
„Nei, nei, nei. Þetta er bara fínasta gönguleið. Þangað til þú kemur í hraunið. Menn þurfa bara að hafa vara á sér þar,“ segir Sigurður.
„Við smölum hérna á hverju ári og búin að fara margar ferðir hérna. Þetta er miklu erfiðara,“ segir Þórlaug.
Þess má geta að í Krókamýri er lækur með tæru vatni. Þar er einnig salerni á vegum Reykjanesfólkvangs.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: