Lífið á Vísi hafði samband við nokkra þekkta Íslendinga sem deildu skemmtilegum og persónulegum staðreyndum sem fæstir vita.
Spilar á píanó
Birgitta Líf Björnsdóttir athafnakona æfði á píanó í ellefu ár þegar hún var yngri.
„Ætli það sé ekki hæfileiki sem fær ekki oft að njóta sín,“ segir Birgitta Líf létt.

Ósigrandi í FIFA
Tónlistarmaðurinn Kristmundur Axel Kristmundsson er fingrafimur.
„Ég er mjög góður í FIFA tölvuleiknum. Það er mjög erfitt að sigra mig í þeim leik,“ segir Kristmundur léttur.

Kann allar höfuðborgir heimsins
Fjölmiðlamaðurinn Björn Bragi Arnarsson býr yfir þeim leynda hæfileika að geta talið upp allar höfuðborgir landa í heiminum. Að sögn Björns Braga fékk hann töluverða athygli frá bekkjarfélögum þegar hann var sex ára þegar hann hafði lagt fjölda borga á minnið.
„Ætli þetta hafi ekki verið ákveðin athyglissýki,“ segir Björn sem lagði í kjölfarið fleiri höfuðborgir á minnið.

Tungufimi
Brynja Dan Gunnarsdóttir, varaþingmaður Framsóknarflokksins og eigandi Extraloppunnar segir sinn leynda hæfileika að geta bundið hnút á kirsuberjastöngul með tungunni.

Hærri greindarvísitala en meðalmaður
Fyrirsætan Ásdís Rán Gunnarsdóttir, gjarnan kölluð Ísdrottningin segist nær ósigrandi í mínígolfi.
„Síðan er ég með IQ 142. Annars eru allir hæfileikar mínir opinberir,“ segir Ásdís og hlær.
Á vef Vísindavefsins segir að meðal greindarvísitala fólks sé á bilinu 90 til 109. Ásdís telst því vel yfir meðallagi.
