„Það er hugsanlegt að það sé að draga aðeins úr flæði. Það hefur lækkað í hraunánni á síðustu tólf tímum eða svo, yfir nótt. En samt finnst mér gígvirknin vera mjög svipuð og hún hefur verið. Þannig að miðað við það finnst mér líklegra að það sé tengt því að hluti af hraunflæðinu hafi fundið sér aðra leið sé að fara eitthvað annað,“ segir Þorvaldur Þórðarson, eldfjallafræðingur.
„Þessu gosi er farið að svipa meira og meira til virkninnar sem við sáum í gosinu '21, svona í maí, sennipart apríl. Það er samfelld virkni í einum gíg. Þetta er bara mjög föngulegur gígur með fallegum kvikustrókum.“

Enn ber ekki á neinni færslu norðureftir, ekki á yfirborðinu í það minnsta, segir Þorvaldur, inntur eftir því hvort Keilir sé óhultur í gosinu sem nú stendur yfir.
„Það er alltaf möguleiki að þessi gossprunga gæti lengst til norðurs með myndun nýrra gossprungna en það er mjög ólíklegt að slíkar sprungur nái norður fyrir Keili,“ segir Þorvaldur.
„Ef virknin færist í áttina að Keili og ætli sér eitthvað lengra er miklu líklegra að hún skjóti sér í austurátt, yfir að Trölladyngju, og síðan þá yfir í Krýsuvík.“