Innlent

Nýr lög­reglu­stjóri á Austur­landi verði skipaður á allra næstu dögum

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Það kemur í hlut Þorbjargar Sigríðar Gunnlaugsdóttur dómsmálaráðherra að skipa í embætti lögreglustjóra.
Það kemur í hlut Þorbjargar Sigríðar Gunnlaugsdóttur dómsmálaráðherra að skipa í embætti lögreglustjóra. Vísir/Anton Brink

Stefnt er að því að skipað verði í embætti lögreglustjórans á Austurlandi á allra næstu dögum, en þrír sóttu um embættið sem auglýst var laust til umsóknar í sumar. Staða lögreglustjórans á Austurlandi hefur verið laus síðan í vor eftir að fyrrverandi lögreglustjóri hvarf til annarra starfa, og hefur lögreglustjórinn á Norðurlandi vestra verið settur lögreglustjóri í umdæminu síðan.

Margrét María Sigurðardóttir, fyrrverandi lögreglustjóri á Austurlandi, var í apríl á þessu ári skipuð í embætti framkvæmdastjóra nýrrar Mannréttindastofnunar Íslands sem tók til starfa þann 1. maí. 

Páley Borgþórsdóttir, lögreglustjóri á Norðurlandi eystra, var þá í framhaldinu tímabundið sett í embætti lögreglustjóra á Austurlandi og hefur hún síðan gegnt hlutverki lögreglustjóra í báðum umdæmum. Þá var Úlfari Lúðvíkssyni, fyrrverandi lögreglustjóra á Suðurnesjum, boðið starf lögreglustjórans á Austurlandi á fundi með dómsmálaráðherra um miðjan maí, án þess að þurfa að sækja starfið, gegn því að hann myndi láta af störfum sem lögreglustjóri á Suðurnesjum. 

Úlfar afþakkaði boðið og lét svo af störfum sem lögreglustjóri líkt og fjallað var um í fréttum í vor. Þá var Margrét Kristín Pálsdóttir tímabundið sett í stöðu lögreglustjóra á Suðurnsejum, en hún er jafnframt ein þeirra sex umsækjenda um embætti lögreglustjóra á Suðurnesjum sem gert er ráð fyrir að dómsmálaráðherra muni skipa í þann 1. desember næstkomandi.

Sjá einnig: Sex vilja fyrrum embætti Úlfars

Dómsmálaráðherra auglýsti svo loks embætti lögreglustjórans á Austurlandi laust til umsóknar í júní og rann umsóknarfrestur út í júlí þegar greint var frá nöfnum umsækjenda. Þrjár umsóknir bárust um setningu í embættið en umsækjendur eru þeir Hlynur Jónsson, lögmaður, Kristmundur Stefán Einarsson, aðalvarðstjóri og aðstoðarsaksóknari hjá Lögrelunni á höfuðborgarsvæðinu, og Sigurður Hólmar Kristjánsson, settur lögreglustjóri á Norðurlandi vestra.

Samkvæmt svörum frá dómsmálaráðuneytinu við fyrirspurn fréttastofu í dag er gert ráð fyrir að skipað verði í embættið „á allra næstu dögum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×