„Það er alltaf fólk að reyna að finna einhverjar leiðir fram hjá. En það sjá það allir að það er glórulaust,“ segir Hjálmar. „Við erum búin að fá umferðaróhapp á Suðurstrandarvegi. Þar fauk kerra. Við erum búin að vera að bjarga reiðhjólamönnum á Suðurstrandavegi og keyra þá til byggða og mótorhjól vær nærri fokið út af þannig að þetta eru algjörlega vonlausar aðstæður.“
Sumir ferðamenn fóru snemma í morgun af stað og tíma hefur tekið að tæma svæðið. Lögreglan tók ákvörðun um lokun klukkan 10:30.
„Þú finnur hvernig veðrið er núna, þetta slær ábyggilega upp í 25 metra á sekúndu,“ segir Hjálmar. „Það er mikill reykur á svæðinu, það er mosabruni og svo er gas líka þannig að þetta er algjörlega vita vonlaust veður að vera að hleypa túristum að ganga þessa leið.“
Að sögn Hjálmars verður örugglega lokað á morgun, föstudag, en síðan verður staðan endurskoðuð á laugardag.
„Við ætlum að reyna að nýta tímann til að meta aðstæður og reyna að slökkva þessa mosaelda sem eru búnir að dreifa mjög mikið úr sér og við höfum ekki komist að vegna gangandi umferðar og umferðar á svæðinu,“ segir hann.