Dómari segir konuna ekki eiga rétt á fundarlaunum þar sem hún hafi játað glæp í tengslum við málið.
Tveir menn réðust á aðstoðarmann Lady Gaga í febrúar 2021 þegar hann var að viðra þrjá hunda hennar. Mennirnir skutu aðstoðarmanninn einu sinni, tóku tvo af hundunum, þá Koji og Gustav, og flúðu af vettvangi.
Söngkonan hét því að sá sem skilaði hundum hennar fengi hálfa milljón dala í fundarlaun, en það samsvarar um 67 milljónum króna, miðað við gengið í dag. Þá sagðist hún ekki ætla að spyrja neinna spurninga um það hvernig viðkomandi hefði komið höndum yfir hundana.
Tveimur dögum eftir að hundunum var rænt var þeim skilað af konu sem heitir Jennifer McBride. Hún hafði þekkt mennina sem rændu hundunum í mörg ár og var ákærð fyrir að taka við hundunum, vitandi að þeim hefði verið rænt. Hún gerði samkomulag við saksóknara og játaði að hafa tekið móti ránsfeng.
Sjá einnig: Í mál við Lady Gaga eftir að hafa skilað hundunum hennar
Samkvæmt frétt TMZ hefur dómari fellt niður lögsókn McBride gegn Lady Gaga og á þeim grundvelli að hún eigi ekki að geta hagnast á lögbrotum sínum.
Ryan Fischer, aðstoðarmaður Lady Gaga sem var skotinn, var í alvarlegu ástandi um tíma en hefur síðan náð sér að fullu.