Kviðdómur í Harris-sýslu í Texas ákvað í dag að ákæra yrði ekki gefin út á hendur rapparanum. Þetta staðfestir Kent Schaffer, lögmaður Scotts, í samtali við AP-fréttaveituna.
„Hann hvatti engan til að gera nokkuð sem gæti valdið öðrum skaða. Þessi ákvörðun er mikill léttir,“ er haft eftir honum.
Travis Scott, sem jafnframt var einn af aðstandendum hátíðarinnar, var á sviðinu þegar áhorfendur freistuðu þess að komast sem næst með þeim afleiðingum að fjöldi tónleikagesta varð undir. Tíu létust, þar á meðal níu ára drengur, og hundruð særðust.
Haft er eftir Schaffer að hann hafi mikla samúð með fórnarlömbum og aðstandendum þeirra en að Scott sé ekki ábyrgur fyrir skaða og missi þeirra. Ákæra á hendur honum myndi ekki lina þjáningar þeirra.
Ríflega fimm hundruð manns hafa stefnt ýmist Live Nation, skipuleggjendum hátíðarinnar, eða Scott. Um sumar þeirra hefur verið komist að dómsátt.