Sendiherrann greinir frá því á Facebook-síðu sinni þar sem hann birtir mynd af sér og ferðatöskunum fyrir utan sendiráðið íslenska sem stendur við Khlebnyy Pereulok. Þá greinir Árni Þór frá því að hann sé á leiðinni til Pétursborgar, en þaðan mun leiðin liggja út úr Rússlandi. Hans bíður nú staða sem nýr sendiherra Íslands í Kaupmannahöfn.
„MOSKVA kvödd. Það hafa sannarlega verið viðburðarrík ár hér í Rússlandi og ekki allt verið fyrirsjáanlegt nema síður sé. En fram undan eru ný verkefni sem ég hlakka til að takast á við,“ segir Árni Þór.
Leggja niður starfsemi sendiráðsins
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra tilkynnti fyrr í mánuðinum að ákveðið hefði verið að leggja niður starfsemi sendiráðs Íslands í Moskvu frá 1. ágúst næstkomandi. Þá hefði sendiherra Rússlands hér á landi verið tjáð að gert sé ráð fyrir að Rússland minnki fyrirsvar sitt þannig að sendiherra stýri ekki lengur sendiráði Rússlands í Reykjavík.
Sömuleiðis hefði Rússlandi verið gert að lágmarka starfsemi sendiráðsins á Íslandi til samræmis við þessa ákvörðun.
Fimm staðarráðnum og leigunni sagt upp
Í svörum utanríkisráðuneytisins við fyrirspurn fréttastofu kom þá fram að fimm staðarráðnum starfsmönnum íslenska sendiráðsins í Moskvu yrði sagt upp í samræmi við gildandi ráðningarsamninga. Þá væri gert ráð að leigusamningum fyrir húsnæði sendiráðsins og sendiherrabústað yrði sagt upp. Sjö manns hafa starfað við sendiráð Íslands í Moskvu – tveir útsendir starfsmenn ráðuneytisins og fimm staðarráðnir starfsmenn.
Mikil spenna hefur verið í samskiptum Rússlands og vesturlanda frá upphafi innrásar Rússlands í Úkraínu í febrúar 2022. Ákvörðun íslenskra stjórnvalda nú er sögð ekki fela í sér slit á stjórnmálasambandi ríkjanna og að „um leið og aðstæður leyfa“ verði lögð áhersla á að hefja starfsemi sendiráðs Íslands í Moskvu á ný.