Þann 9. maí síðastliðinn var Trump dæmdur fyrir kynferðisofbeldi og ærumeiðingar í garð Carroll af dómstól í New York borg. Var Trump dæmdur í einkamáli til að greiða fimm milljónir dollara í miskabætur, eða um 690 milljón króna.
Kæra Trump, sem lögð var fram á þriðjudag, lýtur að ummælum sem Carroll lét falla eftir uppkvaðningu dómsins. Það er að Trump hafi nauðgað henni. Dómurinn lýtur að kynferðisofbeldi án tilgreiningar á tegund þess.
Fer Trump fram á að Carroll dragi þessi ummæli til baka auk þess að greiða bætur. Ekki er nefnd nein upphæð í því samhengi.
Carroll, sem starfaði sem greinahöfundur hjá tímaritinu Elle, greindi fyrst frá ofbeldi Trump árið 2019. Það er að hann hafi nauðgað henni í verslunarhúsnæði í New York árið 1996. Eftir að Carroll steig fram sagði Trump hana þá lygara og var hann dæmdur fyrir það í maí.
Í frétt breska blaðsins The Guardian um málið er sagt að ólíklegt sé að málaferlum Trump og Carroll ljúki á næstunni. Auk þessarar nýju kæru hefur Trump áfrýjað dóminum frá því í maí. Þá hefur Carroll einnig kært Trump á nýjan leik fyrir meiðyrði, vegna ummæla sem hann hafði uppi eftir að dómurinn í maí féll.