„Hvort þetta mun leiða til borgarastyrjaldar og valdaskipta eða hvort að sókn málaliðanna einfaldlega fjari út á næstu klukkustundum eða dögum, er mjög erfitt að segja til um,“ segir Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði.
Eins og fram hefur komið greindi Yevgeny Prigozhin, leiðtogi hópsins, frá því í gær að Rússar hefðu gert árás á herstöð hópsins í suðurhluta Rússlands, þar sem fjöldi málaliða hafi týnt lífi. Prigozhin hét því að gera út af við yfirmenn hersins og aðra sem stæðu í vegi fyrir honum.
Eftir ávarp Prigozhin héldu málaliðar Wagner til Rostov borgar í suðurhluta Rússlands, og tóku yfir stjórn borgarinnar. Vladimír Pútin, forseti Rússlands hefur sagt málaliðunum að leggja niður vopn.
Þá hét hann því að draga þá sem að henni kæmu til ábyrgðar. Eftir ávarp Pútíns sögðu forsvarsmenn Wagner að forsetinn hefði tekið ranga ákvörðun og að brátt myndu Rússar eignast nýjan forseta.
Enginn hátt settur samstarfsmaður Vladimírs Pútíns, Rússlandsforseta, hefur enn sem komið er snúist gegn forsetanum.
„Á meðan svo er þá verður mjög erfitt fyrir Wagner liða að koma á valdaskiptum í Rússlandi,“ segir Baldur.
Farið að valda verulegum óróleika í nágrannaríkjunum
„En ef þeir ná að sækja áfram fram og taka yfir fleiri herstöðvar og borgir, þá náttúrulega horfir einfaldlega fram á borgarastyrjöld í Rússlandi og hvert hún mun leiða er náttúrulega ómögulegt að segja til um. Það er líka athyglisvert að þetta er farið að valda verulegum óróleika í nágrannaríkjum Rússlands, sérstaklega Hvíta-Rússlandi en einnig öðrum ríkjum, þannig það er mikill titringur á öllu svæðinu.“
Hann segir nokkuð ljóst að staða innrásar Rússa í Úkraínu sé umtalsvert breytt. Uppreisn Wagner hópsins hafi veikt stöðu Pútíns verulega heima fyrir.
„Hvernig sem þetta endar er staða Rússlands og Pútín veikari og staða Úkraínu sterkari. Ég myndi jafnvel gera ráð fyrir því, en það fer eftir því hvernig þróunin verður á næstu klukkutímum og dögum, að þetta muni auðvelda framsókn úkraínska hersins í landinu.“