Sextán frambjóðendur hafa nú staðfest þátttöku í forvali repúblikana sem fer fram á næsta ári, þar á meðal Trump sem sækist eftir að endurheimta forsetastólinn.
Hurd þykir ekki sérstaklega líklegur til afreka í forvalinu miðað við stemminguna í Repúblikanaflokknum undanfarin ár. Flokkurinn hefur færst æ lengra út á hægri jaðar bandarískra stjórnmála en Hurd þykir tiltölulega hófsamur íhaldsmaður. Lítil eftirspurn hefur verið eftir slíkum frambjóðendum í seinni tíð. Gagnrýni Hurd á Trump, sem nýtur enn hylli stórs hluta kjósenda flokksins, er heldur ekki talin hjálpa honum.
Engu að síður lét Hurd fyrrverandi forsetann heyra það þegar hann greindi frá framboðinu í myndbandi í dag.
„Ef við tilnefnum löglausan, sjálfselskan og misheppnaðan stjórnmálamann eins og Donald Trump, hann tapaði fulltrúadeildinni, öldungadeildinni og Hvíta húsinu, vitum við öll að Joe Biden vinnur aftur,“ sagði Hurd í myndbandi sem hann birti.
Lagði Hurd áherslu á einingu og efnahagsleg tækifæri og jöfnuð fyrir landsmenn alla í ummælum sínum, að sögn Reuters-fréttastofunnar.
Hurd starfaði fyrir bandarísku leyniþjónustuna CIA í Miðausturlöndum og Suður-Asíu. Hann náði kjöri sem fulltrúadeildarþingmaður árið 2014 og sat í leyniþjónustunefnd hennar. Hann gaf ekki kost á sér í þingkosningunum árið 2020.