Tveggja daga heimsókn Blinken í Beijing hófst með fundi með Qin Gang, kínverska starfsbróður hans, í dag. Hvorugur þeirra sagði nokkuð efnislegt við fréttamenn áður en fundur þeirra hófst, að sögn AP-fréttastofunnar. Mögulegt er að Blinken hitti Xi Jinping forseta á morgun.
Ágreiningsmál þjóðanna tveggja eru mörg þessi misserin, þar á meðal framtíð Taívans, mannréttindamál í Kína og Hong Kong, hernaðarumsvif Kínverja í Suður-Kínahafi og stuðningur þeirra við stríðsrekstur Rússa í ÚKraínu. Einnig er Blinken sagður vilja ræða við Kínverja um að draga úr framleiðslu og útflutning á fentanýlefnum sem valda usla í Bandaríkjunum.
Blinken átti að heimsækja Kína fyrir fimm mánuðum en henni var frestað eftir að meintir kínverskir njósnaloftbelgir fundust á sveimi yfir Bandaríkjunum.