„Ég ætla nú ekki að segja að þetta hafi verið torsótt því mér fannst við spila alveg frábærlega í fyrri hálfleik. Við vorum að spila þennan leik glæsilega og boltinn gekk vel,“ sagði Pétur í leikslok.
„Svo skorum við snemma í seinni hálfleik og áttum svo sem að skora úr víti í fyrri hálfleik líka. Við skorum strax í upphafi seinni hálfleiks, en mér fannst við frekar kærulausar sendingalega séð og annað. En auðvitað er alltaf erfitt að spila á móti Þór/KA.“
Eftir jafnar upphafsmínútur fór Valsliðið að herða tökin og náði að skapa sér nokkur ákjósanleg færi. Pétur segist hafa viljað sjá sitt lið koma boltanum oftar í netið en bara í þetta eina skipti í leiknum.
„Mér fannst við eiga að gera það í fyrri hálfleik. En eins og ég segi þá er erfitt að spila á móti Þór/KA því þetta er gott lið þannig ég er bara sáttur við að vinna leikinn 1-0.“
Það var svo Þórdís Elva Ágústsdóttir sem skoraði eina mark leiksins þegar hún lét vaða af löngu færi og smurði boltann upp í samskeytin fjær.
„Með vinstri meira að segja,“ sagði Pétur léttur aðspurður út í markið.
„Það er alltaf langbest að skjóta með vinstri og reyna að skora.“
Þrátt fyrir að Valsliðið sé nú búið að tengja saman þrjá deildarsigra í röð og sitji á toppi deildarinnar vildi Pétur þó ekki missa sig í gleðinni.
„Það er bara næsti leikur á móti Tindastóli sem er jafn erfiður og þessi. Þetta er bara einn leikur í einu í bili,“ sagði Pétur að lokum.