Innlent

Ræðum fækkað og ræðu­tíminn styttur

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Sjálfstæðismenn segja tillöguna andlýðræðislega.
Sjálfstæðismenn segja tillöguna andlýðræðislega. Vísir/Vilhelm

Forsætisnefnd Reykjavíkurborgar samþykkti á föstudag tillögur um að festa í sessi breytingar sem gerðar voru til bráðabirgða á fundartíma borgarstjórnar. Þá verður ræðum fækkað og ræðutími styttur. 

Tillögurnar fara nú til umræðu í borgarstjórn.

Samkvæmt tillögunum verða reglur uppfærðar þannig að fundir borgarstjórnar hefjast klukkan 12 og þá er stefnt að því að þeim ljúki klukkan 19.30.

Borgarfulltrúar, sem gátu áður tekið þrisvar til máls við hverja umræðu, munu framvegis geta tekið tvisvar til máls, að frummælanda undanskildum sem mun áfram getað talað þrisvar. Ræðutími í fyrstu ræðu verður styttur úr tíu mínútum í átta mínútur.

Andsvör verða að auki stytt úr tveimur mínútum í eina mínútu og orðaskipti í andsvörum stytt úr sextán mínútum í tíu mínútur.

Tillögunum var harðlega mótmælt á fundi forsætisnefndar af Mörtu Guðjónsdóttur, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, og áheyrnafulltrúum Flokks fólksins og Sósíalistaflokksins.

„Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks geta með engu móti samþykkt andlýðræðislegar tillögur sem takmarka rétt þeirra til að koma sínum sjónarmiðum og málum á framfæri. Gæta þarf þess að farið sé að lögum og réttindum borgarfulltrúa og jafnræðis sé gætt milli þeirra. Borgarstjórn er málstofa borgarfulltrúa og með því að setja þak á lok borgarstjórnarfunda, stytta ræðutíma í fyrstu ræðu úr 10 mínútum í átta, fækka ræðum borgarfulltrúa úr þremur við hverja umræðu í tvær og að hvert andsvar fari úr tveimur mínútum í eina er verið að ganga á rétt borgarfulltrúa, málfrelsi þeirra og tillögurétt,“ sagði í bókun Mörtu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×