Henríetta er fædd árið 2005 og spilar með HK í Lengjudeild kvenna í knattspyrnu. Hún fótbrotnaði í 3-1 tapi HK gegn Fram í Mjólkurbikar kvenna og missir því að öllum líkindum af knattspyrnusumrinu eins og það leggur sig.
Frammarar ákváðu því að gefa henni smá gjöf og tilkynntu það á Instagram-síðu sinni. Þar segir:
„Henríetta er virkilega flottur ungur leikmaður, grjóthörð, góð í fótbolta og glæsilegur fulltrúi HK og Íslands í U19 landsliðinu. Þrátt fyrir þessi vondu meiðsli ber hún sig vel og er jákvæð í mótlætinu. Alvöru karakter. Hún og fjölskylda hennar tóku vel á móti okkar fólki og voru ekkert nema elskulegheitin.“
Þá óskuðu Frammarar henni góðs bata og segjast hlakka til að sjá hana á vellinum sem fyrst. Henríetta á að baki 11 leiki fyrir yngri landslið Íslands og á framtíðina greinilega fyrir sér.