Í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær var fjallað um sláandi skýrslu Matvælastofnunar um velferð hvala við hvalveiðar á Íslandi.
Þar gagnrýndi lögmaður Náttúruverndarsamtaka Íslands ráðherra fyrir að afturkalla veiðileyfi Hvals hf. ekki, en félagið er það eina á Íslandi sem má veiða hvali. Sagði hún veiðileyfið vera háð skilyrðum um að farið yrði eftir öllum reglum en skýrslan varpað ljósi á brot Hvals hf. á ákveðnum ákvæðum.
Þá hafa fleiri gagnrýnisraddir bæst við í hópinn, meðal annars frá formanni Viðreisnar, sem segir það óverjandi að ráðherra skuli ekki afturkalla leyfið.
Matvælaráðherra segir það ekki vera rétt að hún geti afturkallað leyfið eftir útgáfu leyfisins þrátt fyrir að orðalag þess gefi það í skyn.
„Samkvæmt minni ráðgjöf sem ég fæ úr mínu ráðuneyti sem snýst um það að allt sem ég geri þarf að byggja á lögum en ekki bara minni afstöðu eða minni skoðun á einhverjum viðfangsefnum, segir mér það að það sé ekki lagagrundvöllur til þess að afturkalla leyfið. Ég vil byggja mínar ákvarðanir á traustum grunni og fer þess vegna að þessari ráðgjöf,“ segir Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra í samtali við fréttastofu.
Hún ítrekaði að fagráð um velferð dýra muni ákvarða um næstu skref, líkt og áður hefur komið fram.
„Mér blöskraði og ég sagði að þetta væru sláandi niðurstöður og það er þannig. En um leið þá er ég embættismaður sem verður að fara eftir lögum. Næstu skref snúa að því að Matvælastofnun heldur áfram að vísa þessum niðurstöðum til fagráðsins og fagráðið metur og vegur hvort það sé yfirhöfuð hægt að uppfylla lög um dýravelferð þegar verið er að drepa þessi stóru dýr,“ segir Svandís.
Ekki liggur fyrir hvort, eða þá á hvaða grunni, það ætti að framlengja veiðileyfið sem rennur út í lok þessa árs. Fréttastofa sóttist eftir viðbrögðum við því frá Kristjáni Loftssyni framkvæmdastjóra Hvals í dag. Hann ansaði þeirri beiðni ekki.