Francisco Oropeza, 38 ára gamall Mexíkói, er sakaður um að skjóta fimm nágranna sína til bana, þar á meðal ungan dreng, í bænum Cleveland í Texas á föstudag. Hann er sagður hafa skotið á nágranna sína eftir að þeir kvörtuðu undan því að hann héldi vöku fyrir ungu barni þeirra með því að skjóta af árásarriffli.
Mikil leit staðar-, ríkis- og alríkislögreglu hófst að Oropeza sem lagði á flótta eftir drápin. Hann fannst loksins undir þvotti í skáp í heimahúsi í bænum Cut and Shoot, um 27 kílómetra vestur af Cleveland í gær. Nafnlaus ábending kom lögreglu á spor hans.
Tim Kean, aðstoðarlögreglustjóri í San Jacinto-sýslu, sagði á blaðamannafundi í dag að nokkrir hefðu verið handteknir til viðbótar. Hann skýrði ekki hvernig þeir væru taldir tengast glæp Oropeza, að sögn Reuters-fréttastofunnar.
„Hver sá sem hjálpaði þessi brjálæðingi á sannarlega við einhver vandamál að stríð að mínu viti,“ sagði Kean.
Hann sagði ennfremur að Oropeza þurfi að reiða fram fimm milljónir dollara til þess að fá lausn gegn tryggingu þegar hann kemur fyrir dómara í dag. Það er jafnvirði meira en 680 milljóna króna.
Flest fórnarlömbin voru skotin í höfuðið. Þau voru öll upprunalega frá Hondúras en voru ekki öll tengd fjölskylduböndum þrátt fyrir að þau byggju saman. Á meðal þeirra látnu var níu ára gamall drengur og móðir hans á þrítugsaldri.