Skoðun

Ekki eftir neinu að bíða

Áróra Árnadóttir, Gerður Jónsdóttir, Halla Helgadóttir og Þórhildur Fjóla Kristjánsdóttir skrifa

Um fjörutíu áhrifamiklir aðilar úr virðiskeðju byggingariðnaðarins tóku nýlega þátt í Hringborði hringrásar, vinnustofu um innleiðingu hringrásarhagkerfis í byggingariðnaði.

Niðurstaða vinnustofunnar var skýr: Ísland stendur nágrannaþjóðum að baki þegar kemur að innleiðingu hringrásar í byggingariðnaði og mikilvægt að hefjast handa hið fyrsta.

Hvað þarf að gera?

Innleiða leikreglur hringrásar

Ljóst er að til að ná markvissum árangri er brýnt að að móta skýrar leikreglur þvert á virðiskeðju byggingariðnaðarins. En hvernig gerum við það? Það er hægt að gera með því að uppfæra lagarammann í byggingariðnaði bæði til þess að flýta fyrir og hvetja til innleiðingar. Hér eru nokkrar hugmyndir:

  • Gera ákveðnar kröfur um hámarkslosun á CO2 í byggingarframkvæmdum.
  • Gera kröfur um endurnýtingu byggingarefna í byggingarreglugerð.
  • Setja lög og reglur um niðurrif bygginga og tryggja að byggingarefni verði endurnýtt.

Skapa hvata

Mikilvægt er að innleiða hvata fyrir byggingariðnaðinn og beina byggingarframkvæmdum markvisst inn á spor hringrásar. Hér eru nokkrar hugmyndir:

  • Setja gjaldmiðil á CO2 losun þannig að hún hafi fjárhagslegt vægi á öllum stigum byggingarframkvæmda.
  • Lækka lóðagjöld gegn ákveðnu hlutfalli endurnýtingar. Græn fjármögnun geri kröfur um endurnýtingu.
  • Virðisaukaskattur sé afnuminn/lækkaður við endursölu endurnýttra byggingarefna.
  • Virðisaukaskattur sé afnuminn/lækkaður á vinnu sem fer í að meðhöndla byggingarefni til endurnýtingar.

Tækifæri felast í að opinberir aðilar sýni gott fordæmi og hraði þróuninni með því að leggja áherslu á hringrásarhönnun og endurnýtingu í verkefnum á þeirra vegum. Huga þarf í auknum mæli að því að viðhalda núverandi byggingum vel og forðast óþarfa niðurrif á byggingum og byggingarhlutum.

Hanna hringrásina

Hönnun nýrrar bygginga og endurhönnun á eldri byggingum er lykilatriði í farsælli innleiðingu hringrásar í byggingariðnaði. Annars vegar er hægt að hanna byggingar og byggingarhluta með aukinn sveigjanleika svo hægt sé að lengja líftíma þeirra og auka endurnýtingu við endurbætur og breytingar. Hins vegar að hanna nýjar byggingar með endurnýttum byggingarefnum og byggingarhlutum og draga þannig verulega úr umhverfisáhrifum af framleiðslu og flutningi á nýjum byggingarefnum. Mikil tækifæri felast í þverfaglegu samstarfi hönnuða og framleiðenda.

Markaðstorg fyrir notaðar byggingarvörur

Virkt markaðstorg fyrir notaðar byggingarvörur er lykilatriði til að ná árangri og að söluaðilar byggingarefna taki virkan þátt í að endurselja notuð byggingarefni. Nýlega var opnaður stór sölustaður fyrir notuð byggingarefni í Osló og við getum lært mikið af reynslu Norðurlanda í þessum efnum.

Rannsóknasetur og menntun

Til þess að bæta og auka þekkingu á gæðum, endingu og nýsköpun fyrir hringrás byggingariðnaðarins þarf öflugt rannsóknarsetur og þverfaglegar byggingarrannsóknir. Við þurfum að vera opin fyrir tilraunum og nýrri nálgun til að takast á við breyttan veruleika. Við eigum öflugan hóp af vel menntuðum sérfræðingum og búum yfir mikilli reynslu sem við getum nýtt til að stunda rannsóknir, tilraunir og nýsköpun. Til að það geti gerst þarf að skapa öflugan vettvang og rannsóknarmiðstöð með tækjum sem geta staðfest og vottað að efnin sem við vinnum að og þróum uppfylli þær kröfur sem við gerum til húsnæðis og mannvirkja. Um leið þurfum við að tryggja að menntastofnanir séu að kenna nýjustu lausnir og aðferðir í hringrásarhönnun og verkþekkingu.

Öflugt samstarf allra hagaðila

Til að hraða breytingunni og tryggja að öll virðiskeðjan sé með í markvissri hringrásarvegferð þarf að setja á fót samráðshóp um innleiðingu hringrásar í byggingariðnaði. Allir fag- og hagaðilar virðiskeðjunnar þurfa að vera með í slíkum samráðshópi til að tryggja farsæla innleiðingu.



Breytt hugarfar

Allar nýjungar kalla á breytta hugsun og í þeim felast áskoranir en líka spennandi tækifæri til endurhugsunar og nýsköpunar. Það er ljóst að innleiðing hringrásar mun breyta því hvernig við framkvæmum og úr hverju er byggt. Hingað til höfum við leyft okkur að stunda niðurrif og farga því sem við viljum ekki hafa í okkar nánasta umhverfi með því að færa úrganginn úr augsýn. Nú vitum við að þessi hugsun og aðferðarfræði gengur ekki upp. Við þurfum að setja niðurrifi skorður og gera kröfur um framhaldslíf efna sem fjarlægð eru úr byggingum. Þetta kallar ekki aðeins á breytta hönnun húsnæðis heldur einnig á nýja fagurfræði.

Það er eftir engu að bíða.

–––––

Vinnustofan Hringborð Hringrásar og opin stefnumót hafa það að markmiði að tengja saman ólíka fag- og hagaðila í samtal um nauðsynlegar breytingar og eru skipulögð af Miðstöð hönnunar og arkitektúrs, Arkitektafélagi Íslands, Grænni byggð, EFLU verkfræðistofu, og Hornsteini ehf. í samstarfi við FSRE, Reykjavíkurborg og Samtök iðnaðarins. Verkefnið Hringborð hringrásar er unnið með stuðningi frá Aski Mannvirkjarannsóknarsjóði á vegum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.

Á viðburðunum komu fram Helle Redder Momsen, Nordic Sustainable Construction; Alexander van Leersum, Build to Impact; Arnhildur Pálmadóttir, s.ap. Arkitektar; Áróra Árnadóttir, Grænni byggð; Halla Helgadóttir, Miðstöð hönnunar og arkitektúrs; Sigríður Bjarnadóttir, Hornsteinn ehf.; Ólafur Ágúst Ingason, EFLA; Guðrún Ingvarsdóttur, FSRE; Anders Bang Kiertzner, Lendager Group og Anders Lendager, Lendager Group (DesignTalks).

Höfundar eru:

  • Áróra Árnadóttir, framkvæmdastjóri Grænni byggðar
  • Gerður Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Arkitektafélags Íslands
  • Halla Helgadóttir, framkvæmdastjóri Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs
  • Þórhildur Fjóla Kristjánsdóttir, sérfræðingur hjá Eflu



Skoðun

Sjá meira


×