Frá þessu segir á Facebook-síðu Landhelgisgæslunnar en áhöfn varðskipsins Freyju dældi olíu úr skipinu í gær.
Wilson Skaw strandaði í Húnaflóa á þriðjudaginn. Kafarar á vegum Landhelgisgæslunnar skoðuðu bol skipsins í gær og var í kjölfarið soðið fyrir minnst tvö göt á skipinu, annars vegar í lest þess og hins vegar í vélarrúmi. Skipið er nú í vari í Steingrímsfirði.
Frekari skoðun á vegum eiganda skipsins leiddi hins vegar til þess að ákvörðun var tekin um að fresta því að draga skipið til hafnar. Landhelgisgæslan mun eiga fund með eigendum í dag þar sem næstu skref verða rædd.
Skipið, sem er um 4.000 brúttótonn og 113 metra langt var á leið frá Hvammstanga til Hólmavíkur þegar það strandaði. Um borð voru um tvö þúsund tonn af salti og 195 tonn af olíu.