AP-fréttastofan segir að McConnell, sem er 81 árs gamall, verði kominn á fullt aftur í öldungadeildinni í þessari viku. Hann hefur dvalið á heimili sínu í Kentucky og safnað kröftum eftir fallið undanfarnar vikur. Auk höfuðáverkans braut þingmaðurinn rifbein.
Í nógu verður að snúast fyrir McConnell á þingi en það verður að ná samkomulagi um að hækka svonefnt skuldaþak ríkissjóðs til að koma í veg fyrir greiðsluþrot á næstu vikum.
Öldungadeild þingsins hefur áorkað litlu undanfarin ár þar sem þingsköp gera flokknum í minnihluta kleift að stöðva flest mál nema að aukinn meirihluti sé fyrir þeim. Fjarvist McConnell og tveggja þingmanna demókrata, Dianne Feinstein og John Fetterman, hafa enn hægt á störfum deildarinnar upp á síðkastið, að sögn AP-fréttastofunnar.
Þurfa hjálp repúblikana til að skipta Feinstein út tímabundið
McConnell þarf nú meðal annars að taka ákvörðun um hvort hann hjálpi demókrötum að skipta Feinstein út úr dómsmálanefnd deildarinnar. Feinstein, sem er 89 ára gömul, er enn að jafna sig af veikindum. Fjarvera hennar hefur þýtt að demókratar geta ekki staðfest dómaraefni sem Joe Biden forseti tilnefnir. Margir þeirra hafa hvatt Feinstein til að segja af sér en spurningar hafa lengi verið á lofti um andlega getu hennar til þess að sinna þingstörfum.
Feinstein hefur óskað eftir að varamaður verði skipaður tímabundið í hennar stað. Sextíu þingmenn af hundrað þurfa að samþykkja slíka breytingu og því þurfa demókratar á hjálp repúblikana að halda. Þeir síðarnefndur hafa ekki tekið af tvímæli um hvort að þeir séu tilbúnir til þess.
Fetterman kemur til starfa á þingi í dag. Hann lagðist sjálfviljugur inn á sjúkrahús til að fá meðferð við alvarlegu þunglyndi í febrúar. Læknar hans segja að hann sé nú á batavegi.