Maðurinn sem er talinn á bak við leka á hundruð blaðsíðna af háleynilegum gögnum, þar á meðal um stríðið í Úkraínu, er ungur maður sem vann á herstöð í Bandaríkjunum. Hann deildi upplýsingunum fyrst með smáum hópi á spjallborði innan forritsins Discord, sem er vinsælt meðal leikjaspilara. Svo virðist sem hann hafi reynt að ganga í augun á félögum sínum með því að birta leynileg skjöl í hópnum.
Bandarískir fjölmiðlar nafngreindu manninn í dag. Hann heitir Jack Teixeira og er 21 árs gamall liðsmaður flugþjóðvarðliðsins.
Video here appearing to show Teixeira being taken into custody by the FBI: pic.twitter.com/0yq6hgimnD
— Natasha Bertrand (@NatashaBertrand) April 13, 2023
BREAKING: Sky 5 was overhead as federal agents swarmed a Mass. home and detained a man amid the probe into leaked classified documents about the Ukraine war. https://t.co/5FCrFgz3QZ pic.twitter.com/cwdp4yWJLK
— WCVB-TV Boston (@WCVB) April 13, 2023
Merrick Garland, dómsmálaráðherra, staðfesti að hann hefði verið handtekinn án erfiðleika á heimili sínu í North-Dighton og að hann kæmi fyrir alríkisdómara í Massachusetts í dag. Þar verður þingfest ákæra á hendur honum fyrir að fjarlægja leynilegar varnarmálaupplýsingar með ólögmætum hætti.
Pat Ryder, fylkisforingi í flughernum, sagði að verið væri að meta skaðann sem lekinn hafi valdið. Joe Biden Bandaríkjaforseti sagði að þó að lekinn væri vissulega áhyggjuefni þá væri honum ekki kunnugt um að þýðingarmikil samtímagögn hafi verið á meðal skjalanna sem maðurinn lak.