McConnell, sem er 81 árs gamall, var lagður inn á sjúkrahús eftir að hann hrasaði og féll í kvöldverðarboði í Washington-borg 8. mars. Hann hlaut heilahristing og rifbeinsbrot, að sögn Reuters-fréttastofunnar.
Þingmaðurinn var fluttur á endurhæfingardeild 13. mars en fékk loks að fara heim til sín í gær. Þar ætlar hann að vinna í nokkra daga að ráðum sjúkraþjálfara.
„Ég hlakka til að mæta í persónu í öldungadeildina bráðum,“ sagði McConnell í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér í gær.
McConnell bíða harðvítugar deilur í þinginu þegar hann snýr aftur. Þingið þarf að hækka svonefnd skuldaþak ríkissjóðs á næstu vikum og mánuðum svo ekki komi til greiðsluþrots bandaríska ríkisins í sumar. Repúblikanaflokkur McConnell, sem ræður fulltrúadeildinni, er andvígur hækkun á skuldaþakinu.