Maðurinn var ákærður fyrir tilraun til manndráps og stórfellt brot í nánu sambandi vegna árásarinnar. Héraðssaksóknari gaf út ákæru í málinu fyrr í mánuðinum en maðurinn hefur sætt öryggisvistun síðan hann var handtekinn hinn 29. nóvember.
Fram kemur í ákærunni að öxin hafi verið með tólf sentímetra löngu blaði. Hann hafi slegið konuna í höfuð, hent henni í jörðina og í framhaldinu átt í átökum við hana uns hún komst undan og leitaði skjóls inni í skólanum.
Karlmaðurinn ógnaði þannig lífi, heilsu og velferð hennar á alvarlegan og sérstaklega sársaukafullan og meiðandi hátt, að því er segir í ákæru. Konan hlaut opið sár á höfði, brot á höfuðkúpu og andlitsbeinum, sár og mat á upphandlegg auk fleiri áverka.
Gekkst við skemmdum á bíl
Eins og fyrr segir gekkst hann við því að hafa veitt sambýliskonunni högg með öxi. Hann hafnaði því hins vegar að um ítrekuð högg hafi verið að ræða og neitaði því að um hafi verið að ræða tilraun til manndráps.
Manninum var einnig gefið að sök að hafa unnið skemmdir á bíl konunnar með öxinni og gekkst hann við því við fyrirtöku málsins.
Ákæruvaldið krefst þess að karlmaðurinn verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar. Til vara er þess krafist að hann sæti öryggisgæslu á viðeigandi stofnun. Þá er gerð krafa um 4,5 milljónir króna í miska- og skaðabætur fyrir konuna. Því til viðbótar tvær milljónir vegna tjóns á bílnum.