Avril hafði verið trúlofuð tónlistarmanninum Mod Sun en í síðasta mánuði bárust fréttir þess efnis að þau hefðu slitið trúlofuninni. Þá hafði sambandið þó verið slitrótt um nokkurt skeið.
Skömmu síðar sást Avril svo með Tyga á veitingastað. Heimildarmaður People fullyrti þó að þau væru aðeins vinir og Tyga hefði ekki haft neitt að gera með sambandsslit Avril og Mod Sun. Í síðustu viku sáust þau svo aftur saman, þá í teiti hjá leikaranum Leonardo DiCaprio.
Í gær mættu Avril og Tyga saman í teiti Mugler x Hunter Scafer á tískuvikunni í París. Af myndum að dæma var afar vingott á milli þeirra. Þau leiddust, kysstust og virtust afar lukkuleg með hvort annað.



Var áður með Kylie Jenner
Avril var ein vinsælasta tónlistarkona heims rétt eftir aldamót. Hún er þekktust fyrir smelli á borð við Complicated, Sk8er Boi, I'm With You og Girlfriend. Árið 2014 greindist hún svo með Lyme sjúkdóminn og má segja að hún hafi haldið sig til hlés síðan þá.
Hún var gift tónlistarmanninum Deryck Whibley frá árinu 2006 til 2010. Árið 2013 giftist hún svo Nickelback söngvaranum Chad Kroeger en þau skildu árið 2015.
Tyga er bandarískur rappari sem vakti mikla athygli þegar hann átti í ástarsambandi við raunveruleikastjörnuna Kylie Jenner. Þau voru saman í þrjú ár en hættu saman árið 2017. Tyga var áður með fyrirsætunni Blac Chyna og eiga þau saman einn son.