Adam Groves er frá Lymm í Cheshire. Hann bókaði flug til Íslands til að koma unnustu sinni, Jasmine Mapp á óvart og hafði ráðgert að biðja hennar undir norðurljósunum hér á landi.
Á meðan á fjögurra daga Íslandsdvöl parsins stóð var hins vegar alskýjað og því voru engin norðurljós á himnum.
Adam tókst engu að síður að gera gott úr aðstæðunum og bað sinnar heittelskuðu á vel völdum stað við Íslandsstrendur.
Í gærkvöldi flaug parið heim með flugi Easyjet frá Keflavík til Manchester.
Þegar vélin hafði verið í loftinu í tæpan hálftíma ákvað flugmaðurinn að deyfa ljósin og taka 360 gráðu beygju til að gefa farþegum vélarinnar tækifæri á að virða fyrir sér norðurljósadýrðina á himninum.
„Í fyrstu gátu einungis farþegarnir sem sátu vinstra megin séð ljósin, en við sátum hinum megin í vélinni. Flugmaðurinn sneri svo vélinni við og þá gátum við sem sátum á hægri hliðinni séð þau líka,“ segir Adam, sem náði meðfylgjandi mynd út um gluggann á flugvélinni.

Hann segir í samtali við PA News fréttastofuna að þetta hafi verið sérstök upplifun, og komið skemmtilega á óvart.