Bent var á mögulega upplýsingaóreiðu á vegum stjórnvalda, en á vef Stjórnarráðsins mátti á dögunum lesa að 450 milljarða króna útgjöld ríkisins í mótvægisaðgerðir í heimsfaraldrinum hafi „rutt brautina fyrir efnahagsbata“ sem var sagður hafa hafist 2021.

Spurt var hvaða efnahagsbati það væri, að búa við mjög illviðráðanlega verðbólgu sem hlyti einmitt öðrum þræði að skýrast af umræddum sögulegum útgjöldum hins opinbera, sem prentaði peninga eins og aldrei fyrr.
„Þetta er auðvitað einhver útfærsla á orðalagi. Fallega orðað - og skemmtilegt,“ segir Jakob - en hér duga ekki orðin tóm. Jakob lagði til aðgerðir sem ríkisvaldið gæti strax ráðist í til að bæði draga úr hamslausum ríkisútgjöldunum og upplýsingaóreiðu.
„Það sem væri sniðugast að gera væri að byrja á að reka alla aðstoðarmenn ráðherra. Bara reka þá alla, af því að þeir eru að valda upplýsingaóreiðunni. Ég held að þeir skipti annars engu máli. Reka þá. Og síðan alla upplýsingafulltrúa og fjölmiðlafulltrúa í ráðuneytunum,“ segir Jakob.
Þetta væri skref gegn verðbólgunni. Þess virði að prófa, að sögn Jakobs.