Bandaríkin hafa kallað eftir því að stríðandi fylkingar í Sýrlandi veiti þeim sem þurfa mannúðaraðstoð án tafar. Talið er að minnnst 33 þúsund hafi farist í skjálftunum tveimur en talið er að talan muni tvöfaldast á næstu dögum.
„Öllum hjálparsveitum verður að hleypa til þessara svæða,“ sagði talsmaður Hvíta hússins í gær.
Ein leið til að komast á svæðið
Að mati Sameinuðu þjóðanna eru minnst 870 þúsund matarþurfi bæði í Sýrlandi og Tyrklandi og allt að 5,3 milljónir manna misstu heimili sín í Sýrlandi einu. Samkvæmt tyrkneskum yfirvöldum eru 80 þúsund á sjúkrahúsi og meira en milljón í bráðabirgðahúsnæði.
Tugir þúsunda björgunarmanna eru enn við störf í Tyrklandi þrátt fyrir erfiðar aðstæður. Veður hefur verið kalt á svæðinu undanfarið. Þrátt fyrir frost finnst fólk enn á lífi í rústunum, en færri með hverjum deginum sem líður.
Mest eyðilegging Sýrlandsmegin hefur verið í norðvesturhluta landsins. Svæðið er að mestu undir stjórn uppreisnarmanna og því hefur lítil björgunaraðstoð borist fólkinu. Yfirráðasvæði uppreisnarmannanna er víggirt og aðeins ein leið til að komast inn á svæðið frá Tyrklandi. Sýrlensk yfirvöld tilkynntu í síðustu viku að þau væru viljug til að senda björgunarsveitir á svæðið.
Íslendingar færðir til Adiyaman
Stjórnstöð íslenska hópsins sem sinnir björgunarstarfi á jarðskjálftasvæðum í Tyrklandi var í gær flutt að ósk Bandaríkjamanna, frá borginni Antakya til Adiyaman. Óskað var eftir því að Íslendingar myndu fylgja með til að tryggja áfram samfellu í störfum alþjóðlegra björgunarsveita.
Fjórir aðgerðarstjórnendur voru því sóttir af þyrlu bandaríska hópsins en hinn hluti hópsins hefur lagt af stað heim til Íslands. Þetta kemur fram í tilkynningu frá slysavarnafélaginu Landsbjörg.
Íslenski hópurinn lenti í Tyrklandi fyrr í vikunni og kom sér fyrir við Hatay Expo svæðið í Antayka-borg. Unnið hefur verið að samhæfingu og stjórnun aðgerða ásamt heimamönnum og fólki frá Hollandi, Sviss, Austurríki og Grikklandi.