Skoðun

8 staðreyndir og 4 spurningar

Ágúst Ólafur Ágústsson skrifar

Allir landsmenn þurfa á einhverjum tímapunkti að leita til heilbrigðiskerfisins. Oft gerist það á okkar erfiðustu tímum. Ein af þeirri starfsstétt sem sinnir okkur eru sjúkraliðar. Sjúkraliðar starfa jafnframt á hátæknisjúkrahúsi og heima hjá fólki. Inn á hjúkrunarheimilum og í heilsugæslunni. Sjúkraliðar vinna á nóttunni og á daginn, vinna á jólunum og á hinum bestu sólskinsdögum. Þau vinna allt árið um kring, allan sólarhringinn. Heilbrigðiskerfið myndi ekki virka án sjúkraliða. 

Skoðum nú 8 staðreyndir um sjúkraliða:

  1. Sjúkraliðar eru næstfjölmennasta heilbrigðisstétt landsins.
  2. Sjúkraliðar eru 97% konur.
  3. Meðalaldur stéttarinnar er tæplega 50 ára.
  4. Um helmingur nýútskrifaðra sjúkraliða starfa við eitthvað annað en fagið.
  5. Rúmlega helmingur sjúkraliða hefur hugsað af alvöru að hætta í starfi síðustu 12 mánuði.
  6. Um þriðjungur þeirra töldu mjög líklegt eða talsverðar líkur að þeir myndu hætta í núverandi starfi næstu 12 mánuði.
  7. Byrjunarlaun sjúkraliða er um 450.000 kr.
  8. Meðalgrunnlaun sjúkraliða hjá ríkinu er um 519.000 kr. Svo er auðvitað tekinn skattur og eftir verða um 395.000 kr. útborgaðar.

Nú skulum við skoða 4 spurningar til ykkar:

  1. Finnst ykkur 395.000 kr. vera sanngjörn útborguð laun fyrir sjúkraliðastarf? Til samanburðar eru lágmarkslaun í landinu um 370.000 kr. og atvinnuleysisbætur um 331.000 kr.
  2. Hvað hafa stjórnvöld lengi talað um að leiðrétta kynbundinn launamun eða hinn kynskipta vinnumarkað?
  3. Hvað hafa stjórnvöld lengi talað um að bæta mönnun í heilbrigðiskerfinu?
  4. Hvað hafa stjórnvöld lengi talað um mikilvægi heilbrigðisstétta?

Nú eru 65 dagar þangað til kjarasamningur ríkisins við sjúkraliða rennur út. Nú er einmitt tækifæri fyrir stjórnvöld til að standa við stóru orðin.

Höfundur er ráðgjafi Sjúkraliðafélags Íslands.




Skoðun

Sjá meira


×