Þessa vikuna standa yfir Læknadagar í Hörpu þar sem að nýjustu tíðindi úr heimi læknavísindanna eru rædd. Á meðal þess sem farið var yfir í dag voru loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á sýkla og faraldra.
„Loftslagsbreytingar kalla á ýmiskonar breytingar í lífríkinu. Röskun á vistkerfinu. Hrun ákveðinna tegunda. Mikla fólksflutninga. Meiri nálægð,“ segir Magnús Gottfreðsson smitsjúkdómalæknir.
Þessar breytingar komi til með að hafa veruleg áhrif á smitsjúkdóma.
„Nýlegar rannsóknir benda til þess að allflestir smitsjúkdómar muni færast í aukana eða um það bil fimmtíu og átta prósent af þeim sem að við þekkjum.“
Þá segir hann flesta á því að faraldur líkt og Covid muni endurtaka sig.
„Við vitum bara að það er bara tímaspursmál hvenær það gerist. Flestir eru sammála um það að jafnvel þó að Covid hafi komið okkur svolítið að óvöru mörgum hverjum þá er næsta víst að það verður framhald. Við vitum ekki nákvæmlega með hvaða hætti það verður og það er auðvitað ekki algjörlega fyrirsjáanlegt en menn eru að reyna að spá í spilin og koma í veg fyrir það að þetta komi okkur jafnmikið á óvart og Covid gerði á sínum tíma.“
Þá segir Magnús vísindamenn á því að vaxandi sýklalyfjaónæmi sé ein mest aðsteðjandi ógn við tilvist mannkyns í dag.
„Eitt af stóru vandamálunum hér er að það hefur ekki verið nógu gott samspil milli heilbrigðisþjónustunnar annars vegar og landbúnaðarframleiðslu hins vegar en um það bil 80% af allri sýklalyfjanotkun í heiminum á sér stað innan vébanda landbúnaðar og meðan það er þannig þá er mjög erfitt fyrir lækna að breyta sínum ávísunarvenjum. Það er bara svolítið eins og að pissa upp í vindinn og þess vegna er þörf á alheimsátaki við að draga úr þessu vandamáli.“