Lambrecht hefur sætt mikilli gagnrýni síðustu daga í kjölfar áramótakveðju sinnar á samfélagsmiðlum þar sem hún óskaði stuðningsmönnum sínum og Þjóðverjum öllum gleðilegs nýs árs undir flugeldagný.
Í ávarpinu ræddi Lambrecht meðal annars um innrás Rússa í Úkraínu á meðan flugeldar springa í bakgrunni.
Afsögn Lambrecht hefur legið í loftinu um nokkurt skeið, en þýska blaðið Bild greindi frá því á föstudaginn að ráðherrann myndi segja af sér.
„Þvílíkt ár, árið 2022,“ sagði ráðherrann í ávarpinu. „Það hefur fært okkur ótrúlegar áskoranir. Í miðri Evrópu geisar styrjöld. Í tengslum við styrjöldina varð ég fyrir margvíslegum hughrifum, ég fékk að hitta alls konar áhugavert og flott fólk og fyrir það er ég hjartanlega þakklát.“
Ráðherrann minntist sérstaklega á þau persónulegu kynni sem hún hafi haft af áhugaverðum persónum í tengslum við styrjöldina. Hafa margir sagt nálgunina vera ósmekklega og gera lítið úr alvöru málsins.