Handbolti

Karl G. Benediktsson látinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Karl G. Benediktsson vann sex Íslandsmeistaratitla sem þjálfari og stýrði íslenska handboltalandsliðinu á tveimur heimsmeistaramótum.
Karl G. Benediktsson vann sex Íslandsmeistaratitla sem þjálfari og stýrði íslenska handboltalandsliðinu á tveimur heimsmeistaramótum.

Karl G. Benediktsson, fyrrum leikmaður og þjálfari íslenska landsliðsins í handbolta, er látinn 89 ára að aldri.

Karl lést á hjúkrunarheimili í Hveragerði í síðasta mánuði en útför hans fer fram frá Hallgrímskirkju mánudaginn 16. janúar næstkomandi.

Karl var sjálfur landsliðsmaður en tók síðan sjálfur við íslenska landsliðinu. Hann varð sá fyrsti af Íslendingum til að bæði leika með og þjálfa íslenska landsliðið á heimsmeistaramóti í handbolta.

Karl lék fimm af sex leikjum íslenska liðsins á heimsmeistaramótinu árið 1961 í Vestur-Þýskalandi en aðeins þremur árum síðar þegar heimsmeistaramótið fór fram í Tékkóslóvakíu var Karl orðinn landsliðsþjálfari.

Á því móti stýrði hann íslenska liðinu til sögulegs sigurs á Svíum sem er einn eftirminnilegasti leikur landsliðsins í sögunni.

Karl stýrði íslenska landsliðinu einnig á heimsmeistaramótinu í Austur-Þýskalandi árið 1974 en þá var íslenska liðið með öflugan hóp en lenti í því að stór hluti liðsins veiktist á mótinu.

Karl lék alls tólf landsleiki fyrir Íslands hönd og stýrði landsliðinu síðan í 71 landsleik þar af í 29 leikjum í samfloti við aðra þjálfara en í 42 leikjum var hann einn með landsliðið.

Karl gerði bæði Fram og Víking að Íslandsmeisturum í handbolta. Þegar Fram vann fyrsta Íslandsmeistaratitilinn sinn undir stjórn Karls árið 1962 þá var félagið nýkomið upp úr B-deild og hafði ekki orðið meistari í tólf ár. Karl var þá spilandi þjálfari en hann gerði Fram einnig að Íslandsmeisturum 1963,  1964 og 1967.

Karl tók síðan aftur við Framliðinu á áttunda áratugnum og Framliðið sem hann gerði að Íslandsmeisturum árið 1972 er talið vera eitt besta félagslið handboltasögunnar á Íslandi.

Þegar Karl gerði Víkinga síðan að Íslandsmeisturum 1975, sem var fyrsti Íslandsmeistaratitill félagsins í handbolta, þá rauf hann einokun FH, Fram og Vals sem höfðu unnið alla titla frá 1959 til 1974.

Karl Benediktson var frumherji meðal íslenskra handboltaþjálfara eins og Guðjón Guðmundsson benti á Twitter. Gaupi sagði að hann hafi verið langt á undan sinni samtíð og hafi verið sá fyrsti sem spilaði taktík eða leikkerfi á Íslandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×