Fasteignakaup notuð til að þvætta illa fengið fé
Alls hefur spænska lögreglan lagt hald á 75 fasteignir sem Rússarnir hafa keypt fyrir andvirði tæplega 4ra milljarða íslenskra króna. Þetta eru að stofninum til vellríkir Rússar með tengingu við rússnesk stjórnvöld, sem árum saman hafa verið grunaðir um að forða, eða stela fjármunum frá Rússlandi og stunda svo peningaþvætti í Evrópu með umfangsmiklum fasteignaviðskiptum. Í tilkynningu spænsku lögreglunnar segir að Rússarnir hafi lítil sem engin tengsl við Spán.
Magnitsky og Browder
Málið nær allt aftur til byrjunar aldarinnar þegar rússneski lögfræðingurinn Sergei Magnitsky og bandaríski kaupsýslumaðurinn Bill Browder hófu að rannsaka og fletta ofan af spillingu og einkavinavæðingu í Rússlandi, í kjölfar falls Sovétríkjanna. Magnitsky lést í rússnesku fangelsi árið 2009, eftir barsmíðar og pyntingar af hálfu rússnesku lögreglunnar.
Peningaþvætti Rússa undir smásjá víða
En það er ekki bara á Spáni sem Rússarnir eru undir smásjá lögreglunnar. Meint peningaþvætti þeirra er nú til rannsóknar í 12 öðrum löndum. Og rannsókninni á Spáni er hvergi nærri lokið, enn hefur aðeins ein kona verið handtekin og verið er að rannsaka um 1.000 bankareikninga Rússa í landinu.
Þessa aðgerð spænsku lögreglunnar má að miklu leyti þakka bandaríska kaupsýslumanninum Bill Browder, sem hefur árum saman verið óþreytandi við að vekja athygli á glæpsamlegu athæfi rússnesku ólígarkanna sem hafa athafnað sig í skjóli Vladimirs Pútín, forseta Rússlands. Hann lýsir því nákvæmlega í bók sinni „Eftirlýstur“, sem kom út á íslensku fyrir ári, hvernig ólígarkarnir hafa stundað peningaþvætti á Spáni, aðallega í Málaga, Alicante og á Tenerife, og hann hefur unnið náið með spillingardeild spænsku lögreglunnar í þessari nýafstöðnu aðgerð.
Pútín segir Browder vera ógn við þjóðaröryggi
Spænskir fjölmiðlar rifja einmitt upp í tengslum við aðgerðina í síðustu viku, að árið 2018 hefði spænska lögreglan handtekið Browder að beiðni alþjóðalögreglunnar Interpol. Sérstakur saksóknari spillingarmála hafði samband við Interpol, komst að því að handtökubeiðnin var runnin undan rifjum Pútíns, sem hefur skilgreint Browder sem ógn við þjóðaröryggi í Rússlandi. José Grinda, hinn sérstaki saksóknari í spillingarmálum, útskýrði þá fyrir Interpol hvernig í pottinn væri búið og var Browder þá umsvifalaust látinn laus.