Það voru þeir Kristinn Jónasson og Sævar Sævarsson sem voru með Kjartani í þetta sinn og fyrsta spurningin sem þeir fengu snéri að því hvaða liði í Subway-deildinni þeir myndu vilja spila með, ef þeir ættu kost á því.
Sævar var fljótur að svara því og sagðist vilja fá skotleyfi hjá Breiðablik, en Kristinn vildi halda sér á heima slóðum og spila með Haukum.
Næst spurði Kjartan hvaða liði í deildinni þeir félagar myndu gefa jólagjöf í formi leikmanns. Báðir voru þeir sammála því að KR-ingar þyrftu á jólagjöf að halda, enda situr þetta fornfræga félag á botni deildarinnar í bullandi fallbaráttu.
Þá voru þeir félagar einnig sammála um það að lið Þórs frá Þorlákshöfn væri það lið sem ætti hvað mest inni af öllum liðum í deildinni, ásamt því að velta fyrir sér hvaða leikmann þeir myndu velja til að taka lokaskotið þegar allt er undir og spennunni sem fylgir því að fá körfuboltaleiki í efstu deild með áhorfendur á pöllunum á milli jóla og nýárs.
Framlenginguna í heild sinni má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.